Fréttir frá öðrum vefsvæðum

11.7.2019 Sjúkratryggingar Íslands - Icelandic Health Insurance - Fréttir Samkomulag um kaup og rekstur sjúkrabifreiða

Sjúkratryggingar Íslands og Rauði krossinn á Íslandi hafa náð samkomulagi um framlengingu á samningi um kaup og rekstur sjúkrabifreiða. Heilbrigðisráðherra staðfesti samkomulagið við undirritun þess í dag. Samkvæmt því mun Rauði krossinn áfram annast rekstur sjúkrabíla, viðhald og innkaup gegn árlegu fjárframlagi af hálfu ríkisins. Fyrirliggjandi samningur rann út í lok árs 2015 og hefur endurnýjun sjúkrabílaflotans tafist frá þeim tíma.

 

Í kjölfar samkomulagsins sem gildir til loka árs 2022 verður tafarlaust ráðist í kaup á 25 nýjum sjúkrabifreiðum samkvæmt útboði sem nú stendur yfir og vænta má þess að fyrstu bílarnir verði teknir í notkun á árinu 2020. Reiknað er með að stærsti hluti bílaflotans verði endurnýjaður á samningstímanum. 

2.7.2019 Sjúkratryggingar Íslands - Icelandic Health Insurance - Fréttir Samningur um skipulagða leit að krabbameinum í leghálsi og brjóstum

Sjúkratryggingar Íslands hafa gengið frá samkomulagi við Leitarstöð Krabbameinsfélags Íslands um framlengingu á samningi um skipulagða leit að krabbameinum í leghálsi og brjóstum í þeim tilgangi að draga úr sjúkdómum og fækka dauðsföllum af þeirra völdum. Núgildandi samningur hefur gilt frá ársbyrjun 2014. Með framlengingunni er búið að tryggja þjónustu út árið 2020.

1.7.2019 Sjúkratryggingar Íslands - Icelandic Health Insurance - Fréttir Tímamótasamningur um öldrunarþjónustu undirritaður á Akureyri

Öldrunarheimili Akureyrar (ÖA) hafa undirritað samning við Sjúkratryggingar Íslands (SÍ) um rekstur öldrunarþjónustu. Heilbrigðisráðherra staðfesti samninginn við undirritun hans á Akureyri á laugardag. Með samningnum er skapað svigrúm fyrir aukinn sveigjanleika þjónustunnar til að mæta betur þörfum notenda. Þess er vænst að samningurinn verði fyrirmynd að gerð sambærilegra samninga milli SÍ og annarra rekstraraðila hjúkrunarheimila um allt land.

1.7.2019 Sjúkratryggingar Íslands - Icelandic Health Insurance - Fréttir Samið um lækkun einingaverðs á rannsóknarstofum

Sjúkratryggingar Íslands sömdu nýverið við rannsóknarstofur utan sjúkrahúsa um lækkun á einingarverði. Áætlað er að þessir samningar lækki kostnað hins opinbera um allt að 75 mkr á ársgrunni ef miðað er við óbreyttan einingafjölda.