Fréttabréf Þekkingarmiðstöðvarinnar 5. tölublað 2. árgangur

Heil og sæl

Smá tæknilegir erfiðleikar gerðu vart við sig þarna á föstudaginn, en nú kemur þetta. Þetta er fyrsta fréttabréfið eftir sumarfríið og er þetta fimmta fréttabréfið á þessu ári. Það er búið að vera mikið um að vera í Þekkingarmiðstöðinni eins og sjá má í þessu bréfi og erum við sérstaklega stolt af fyrirlestri Þorberu og námskeiðinu í hjólastólafærni.
Þar sem við erum í átaki í að efla póstlistann okkar, langar okkur að biðja þig um aðstoða okkur og bjóða vinum þínum á póstlistann okkar.  

Ráðgjafinn ráðagóði

Breytingar á starfsmannahaldi

Hann Andri Valgeirsson sem starfað hefur hjá okkur frá upphafi, ákvað að skella sér í fullt nám í Háskólanum í Reykjavík og sagði bless við okkur þann 19. ágúst. Takk Andri fyrir samstarfið og allt stuðið.

Guðný Bachmann, sem einnig hefur starfað hjá Þekkingarmiðstöðinni frá upphafi, kom aftur til vinnu eftir barnsburðarleyfi þann 2. september. Velkomin Guðný.

 

Jafningjafræðsla í formi fyrirlestra

Frá upphafi hefur Þekkingarmiðstöðin stefnt að því að bjóða upp á jafningjafræðslu og hafa miklar vangaveltur verið um hvernig ætti að bjóða upp á slíka fræðslu. Góðir hlutir gerast hægt og þann 15. september sl. fór fyrsti fyrirlesturinn í loftið, það er á vefinn okkar. Þorbera Fjölnisdóttir fjallar þar um fötlun og foreldrahlutverkið, m.a. um þá mikilvægu ákvörðun að eignast börn. Viðbrögðin hafa ekki látið á sér standa og fengum við leyfi til að vitna í Önnu Guðrúnu sem er hjólastólanotandi, en hún sagði: “Eitt frábærasta og mest uppörvandi viðtal sem ég hef heyrt”. Við vonum að þið séuð henni sammála. https://www.youtube.com/watch?v=CJHDOI67geA
Fleiri  fyrirlestrar um alls konar málefni tengd fötlun munu fylgja í kjölfarið og verða þeir auglýstir sérstaklega þegar þeir fara í loftið. Vilt þú deila þinni persónulegu reynslu og gefa góð ráð um málefni sem snerta alla hreyfihamlaða á einhvern hátt? Endilega hafðu þá samband við okkur. Til að hlusta og lesa meira um fyrirlesturinn smelltu hér.

 

Námskeið í hjólastólafærni          

Námskeiðið var haldið laugardaginn 6. sept. í sal Sjálfsbjargar á höfuðborgarsvæðinu og einnig  utandyra. Var það haldið í samvinnu við SEM samtökin, þeir Hákon Atli og Arnar Helgi leiðbeindu þátttakendum sem voru á öllum aldri, sá yngsti níu ára. Pallar og skábrautir voru fengnar að láni hjá Grensásdeild, sem á miklar þakkir skildar fyrir lánið. Námskeiðið tókst mjög vel og voru þátttakendur ánægðir. Þetta er námskeið sem er vert að endurtaka. Myndir frá námskeiðinu má sjá hér. Á döfinni: Námskeið í markmiðasetningu

Nú er búið að setja niður dagsetningar fyrir markmiðanámskeið og er Katrín Björk, sálfræðingur og starfsmaður Þekkingarmiðstöðvar, alveg tilbúin í slaginn. Hún mun fara yfir helstu atriðin í markmiðasetningu, t.d. hvernig hægt er að setja sér gott markmið og vinna markvisst að því að ná því. Katrín Björk fékk til sín fimm hreyfihamlaða einstaklinga í lok júní til að prufukeyra námskeiðið. Líflegar umræður voru í hópnum, sem gaf námskeiðinu góða dóma og Katrínu góð ráð.
Stefnt er að því að bjóða upp á námskeiðið nokkrum sinnum fram að áramótum, og því verða litlir hópar á hverju námskeiði. Næstu námskeið verða haldin seinnipartinn í október, lesa meira um það hér.

Námskeiðið er ókeypis og þeir sem hafa áhuga geta skráð sig á netfanginu: radgjafi@thekkingarmidstod.is.


 

Nýtt netfang

Eins og  glöggir áskrifendur hafa tekið eftir þá er Þekkingarmiðstöðin komin með nýtt netfang og enda öll netföng nú á @thekkingarmidstod.is. Þetta var gert til hagræðingar á tölvupósti miðstöðvarinnar. Gamla netfangið verður þó einnig í notkun eitthvað áfram.

Vissir þú að...


 

 

 


 

 

Til baka