Fréttasafn

Rýmkun á réttindum hreyfihamlaðra vegna bifreiða

12. maí 2017

Á síðustu mánuðum hafa tekið gildi tvær breytingar á reglugerð um styrki og uppbætur tilhreyfihamlaðra einstaklinga vegna bifreiða nr. 170/2009  með síðari breytingum. Markmið reglugerðarinnar er m.a. að gera hreyfihömluðum einstaklingum kleift að stunda atvinnu, skóla og sækja reglubundna endurhæfingu eða læknismeðferð.
Skv. ákvæðum reglugerðarinnar er skilyrði fyrir veitingu uppbótar/styrks m.a. að nauðsyn á bifreið vegna hreyfihömlunar sé ótvíræð og mat á hreyfihömlun liggi fyrir, mat á ökuhæfni liggi fyrir og að hinn hreyfihamlaði hafi sjálfur ökuréttindi eða annar heimilismaður. Með breytingu frá því í lok október 2016 á krafan um að hinn hreyfihamlaði aki sjálfur eða annar heimilismaður þó ekki við þegar um er að ræða hreyfihamlaða einstaklinga í sjálfstæðri búsetu sem hafa persónulega aðstoðarmenn samkvæmt samningi við sveitarfélag viðkomandi, t.d. samning um notendastýrða persónulega aðstoð, beingreiðslusamning eða sambærilegan samning. Reglugerðarbreytingin var gerð til að auðvelda hreyfihömluðum, sem ekki aka sjálfir, að fá uppbót eða styrk til bifreiðakaupa. Í lok mars sl. tók svo gildi breyting á reglugerðinni þess efnis að framvegis verður heimilt í sérstökum tilfellum að veita framfærendum hreyfihamlaðra barna uppbót eða styrk vegna hvers barns til kaupa á einni bifreið ef um er að ræða fleiri er eitt hreyfihamlað barn í sömu fjölskyldu og sem búa á sama heimili, að ákveðnum skilyrðum uppfylltum. Reglugerðarbreytingin er gerð til að gera mögulegt að samnýta bifreiðastyrki/uppbætur til kaupa á einni bifreið ef um tvö eða fleiri hreyfihömluð börn í sömu fjölskyldu er að ræða.

Til baka