Ný reglugerð tekur gildi um eingreiðslur orlofsuppbóta og desemberuppbóta.
Félags- og jafnréttismálaráðherra hefur undirritað reglugerð um eingreiðslur til lífeyrisþega árið 2017. Óskert orlofsuppbót örorkulífeyrisþega sem greiðist í júlí verður 35.415. kr. og desemberuppbótin 53.123 kr. Sambærilegar uppbætur til ellilífeyrisþega verða óskertar 34.500 kr. í júlí og 51.750 kr. í desember. Þetta kemur fram á vef velferðarráðuneytisins.
Þar segir ennfremur, að fjárhæðir orlofs- og desemberuppbóta til lífeyrisþega séu birtar árlega með reglugerð og greiðslur fari fram 1. júlí og 1. desember ár hvert.
„Til þessa hafa reglur um útreikning og fjárhæðir orlofs- og desemberuppbótar verið þær sömu fyrir örorku- og endurhæfingarlífeyrisþega og ellilífeyrisþega. Vegna breytinga sem gerðar voru á bótakerfi ellilífeyrisþega, m.a. með sameiningu bótaflokka, samkvæmt lögum sem tóku gildi um síðustu áramót var ekki lengur unnt að láta sömu reglur gilda um viðmið og útreikninga. Engar breytingar verða hvað varðar orlofs- og desemberuppbætur til örorkulífeyrisþega, en með reglugerðinni sem hér fylgir er kveðið á um nýjar reglur og viðmið vegna útreikninga á uppbótum til ellilífeyrisþega,“ segir í tilkynningu.
Eingreiðslur föst fjárhæð
Tekið er fram, að með breytingunni verði eingreiðslur ellilífeyrisþega föst fjárhæð og óháð því hvort viðkomandi búi einn eða með öðrum. Gert sé ráð fyrir að fjárhæð eingreiðslunnar lækki um 2% vegna tekna ellilífeyrisþega og verði án frítekjumarks. Eingreiðslur til ellilífeyrisþega verði sérstakur bótaflokkur og verður heildarfjárhæðin óskert 86.250 kr. á þessu ári sem greiðist í tvennu lagi, þ.e. 40% í júlí og 60% í desember.
Ennfremur segir, að ef tekjuforsendur breytist hjá ellilífeyrisþega eftir greiðslu orlofsuppbótar í júli sé leiðrétt fyrir því við greiðslu desemberuppbótarinnar til samræmis við það hvort um of- eða vangreiðslu er að ræða.