Fréttasafn

23.09.16 Lög um nýtt greiðsluþátttökukerfi heilbrigðisþjónustu

Breyting á greiðsluþátttöku sjúklinga

23. sep. 2016

Þann 2. júní 2016 var samþykkt á Alþingi frumvarp Kristjáns Þórs Júlíussonar heilbrigðisráðherra um nýtt greiðsluþátttökukerfi vegna heilbrigðisþjónustu. Lögin koma til framkvæmda 1. febrúar 2017.
Markmið frumvarpsins er að verja sjúklinga fyrir mjög háum greiðslum vegna heilbrigðisþjónustu og jafnframt er stefnt að því að heilsugæslan sé að jafnaði fyrsti viðkomustaður sjúklinga.
Samkvæmt frumvarpinu verður tryggt að mánaðarlegar greiðslur fólks fari aldrei yfir tiltekið hámark og sett verður þak á árleg heildarútgjöld fólks fyrir þá heilbrigðisþjónustu sem fellur undir nýja greiðsluþátttökukerfið. Undir nýja kerfið fellur þjónusta heilsugæslu, sjúkrahúsa, sjálfstætt starfandi heilbrigðisstarfsmanna, rannsóknir og geisla- og myndgreiningar. Hámarksgreiðslur hjá öldruðum, öryrkjum og börnum verða lægri en hjá öðrum.

  • Almennur notandi mun í nýju kerfi greiða að hámarki 95.200 kr. á ári fyrir heilbrigðisþjónustu en þó aldrei meira en 33.600 kr. á mánuði.
  • Öryrkjar, aldraðir og börn munu greiða að hámarki 63.500 kr. á ári og aldrei meira en 22.400 kr. á mánuði.

 Við innleiðingu á nýju kerfi munu greiðslur fólks fyrir heilbrigðisþjónustu mánuðina á undan reiknast til afsláttar. Almennur notandi með fullan afslátt mun þá greiða að hámarki 67.200 kr. á ári (í stað 95.200 kr.) en börn, aldraðir og öryrkjar með að hámarki 44.800 kr. á ári (í stað 63.500 kr.) (Upplýsingar fengnar af vef velferðaráðuneytisins 23.september 2016).

 

Til baka