Ferðalög erlendis

Að gefnu tilefni bendum við fólki á að kynna sér vel reglur aðila sem sjá um farþegaflutninga. Sumstaðar er góð þjónusta við fatlað fólk en á öðrum stöðum getur fötluðu fólki verið vísað frá. Mikill munur getur verið milli landa og á milli þjónustuaðila.
Oft getur reynst mikilvægt að hafa meðferðis læknabréf þar sem greint er frá fötlun einstaklings.Við biðjum ferðalanga að senda okkur línu um reynslu sína í ferðalögum erlendis. Veist þú hvar gott er að fá bílaleigubíl sem hentar hreyfihömluðum, aðgengilegt hótel eða skoðunarferðir sem henta fólki sem getur ekki gengið lengi í einu?

Evrópska sjúkratryggingakortið tryggir sama aðgengi að heilbrigðisþjónustu og heimamanna. Það er einungis hægt að sækja um kortið í gegnum réttindagátt einstaklinga á vef Sjúkratrygginga Íslands.

Þeir sem koma til Íslands í tímabundna dvöl, svo sem í sumarleyfi, geta flutt með sér hjálpartæki frá öðrum norrænum löndum vegna Norræns samnings um almannatryggingar.

Á vef Samgöngustofu er hægt að finna hagnýtar upplýsingar fyrir fatlaða og hreyfihamlaða flugfarþega.

Á ferð og flugi- Reynsla Þorkels Sigurlaugssonar

Erindi sem hann hélt hjá Þekkingarmiðstöð Sjálfsbjargar 29.september 2016. Ýmsar hagnýtar upplýsingar sem geta nýst hjólastólanotendum á ferðalögum sem hægt er að skoða í glærum Þorkels  Ferdalog-hreyfihamladra--002-

Bílaleigubílar

Ef einstaklingur ætlar að taka bílaleigubíl en þarf bensín- og stýrisbúnað í bílinn er mikilvægt að hann athugi hvort bílaleigan leyfi slíkan búnað í bílum sínum. Hægt er að fá slíkan búnað leigðan hjá Öryggismiðstöðinni. Það getur verið gott að skoða upplýsingasíðuna Car Rentals for persons with disabilities til að hafa hugmyndir um ensk heiti á sérbúnaði í bíla. 

Flug

Hafa skal í huga að þurfi einstaklingur aðstoð á flugvelli þarf að láta flugfélagið vita með 48 tíma fyrirvara. Einnig er gott að hafa samband við flugfélögin til að fá nánari upplýsingar um þá þjónustu sem er í boði. Samgöngustofa er með  upplýsingar fyrir fatlaða og hreyfihamlaða flugfarþega. Þar kemur m.a. fram að:

 • Fatlaðir flugfarþegar eiga rétt á aðstoð í samræmi við reglugerð nr.475/2008. Reglugerðin tekur til flugs innan landa Evrópusambandsins og evrópska efnahagssvæðisins. Aðstoð við fatlaða og hreyfihamlaða einstaklinga felst m.a. í að gera þeim kleift að
 • Fara í gegnum innritun og öryggisleit á flugvelli
 • Komast um borð í loftfar
 • Koma farangri fyrir um borð í loftfari

 • Ná tengiflugi á flugvelli

 • Komast úr loftfari í gegnum landamæraeftirlit

 • Fara í gegnum tollskoðun á komustað

 • Endurheimta farangur á komustað

 • Auk þess kann að vera um frekari aðstoð að ræða, t.d. við meðhöndlun og frágang hjálpar- og stoðtækja auk miðlunar nauðsynlegra upplýsinga. Þessarar þjónustu skulu fatlaðir njóta án þess að greiða gjald fyrir.

  Nauðsynlegt er að farþegar sem óska aðstoðar á flugvelli eða í flugvél láti vita af þeirri þörf þegar gengið er frá pöntun flugfars.

  Flugrekanda og/eða ferðaskrifstofu ber að koma beiðni farþega áfram til rekstraraðila flugvallar sem ber ábyrgð á því að veita aðstoðina.

Í lið nr.8 á síðu Samgöngustofu um Séraðstoð varðandi flugferðir fatlaðra eru upplýsingar um hvað þarf að hafa í huga varðandi undirbúning og bókun, dæmi um spurningar sem farþegar geta fengið varðandi þarfir sínar fyrir þjónustu og af hverju þarf að spyrja slíkra spurninga, hvað þarf að hafa í huga um borð í flugvélinni, hvað þarf að vita varðandi að fara um og frá borði, og við hvaða aðstæður er hægt að synja flutningi.

Ómar Sveinsson, fagstjóri neytendamála Samgöngustofu, hvetur fatlaða farþega til að láta sig vita ef einhver vandræði verða í flugferðum (það hefur lítið upp á sig að skrifa flugfélaginu, það eru aðrir sem bera ábyrgð á þjónustu á flugvöllum). Kvartanir/ábendingar skal senda á neytendur(hjá)samgongustofa.is


Hér fyrir neðan eru upplýsingar fengnar frá flugfélögunum.

Icelandair

Hægt er að ferðast með hjólastól hjá Icelandair. Hafa þarf samband við þjónustuver Icelandair í síma 5050-100 til að fá upplýsingar um hjólastólaþjónustu. Taka skal fram hvort farþegi ferðast með eigin hjólastól og hvort um er að ræða rafmagnshjólastól.
Ef bókað er á vefsíðu Icelandair þarf að taka sérstaklega fram í „Athugasemdir“ hvort viðkomandi þurfi hjólastól eða hvort hann tekur með sinn eigin stól. Nánari upplýsingar á vefsíðu Icelandair undir "Séraðstoð".

Upplýsingar frá Icelandair fyrir hreyfihamlaða flugfarþega

Icelandair gaf okkur upp neðangreindar upplýsingar sem geta nýst hreyfihömluðum flugfarþegum.

Þurfi flugfarþegi séraðstoð er best að hafa samband við Þjónustuver Icelandair í síma 5050 100 og þau bóka hjólastól fyrir viðskiptavininn. Bóka þarf þessa þjónustu með minnst 48 klukkustunda fyrirvara. Þessi þjónusta er veitt öllum farþegum sem eiga í erfiðleikum með að komast um borð eða frá borði flugvélar og með að hreyfa sig í farþegarými.

Þegar hringt er inn þarf að taka fram ef farþeginn ferðast með sinn eigin hjólastól og einnig að taka fram ef hann er rafknúinn. Jafnframt þarf að gefa upp stærð og þyngd á hjólastól og tegund rafhlöðu ef við á.

Hjólastólaaðstoð er að mestu skipt upp í þrjá flokka miðað við hversu mikla aðstoð viðkomandi þarf:

 1. WCHR (RAMP) - Farþegi sem getur gengið en á erfitt með gang og er jafnvel með göngugrind. Farþeginn gæti farið upp og niður stiga.
 2. WCHS (STEPS) – Farþegi getur gengið að einhverju leyti en getur ekki farið upp og niður stiga.
 3. WCHC (CABIN) – Farþegi sem hefur mjög takmarkaða eða enga hreyfigetu. Farþegann þarf að bera frá stóli að farþegasæti.
Taka skal fram að aldrei er hægt að segja til um hvort flugvél sé við landgang eða á fjarstæði. Vélar á fjarstæði eru með stiga. Verktakar á vegum Isavia sjá um alla séraðstoð í flugstöðinni í Keflavík.

Flugvélafloti Icelandair samanstendur af Boeing 757 flugvélum og eru flestar vélar með 183 farþegasæti og sætabil er a.m.k 32“. Sumarið 2016 er Icelandair einnig að taka inn Boeing 767 flugvélar.

 • Hægt er að lyfta upp örmum á allri sætaröðinni í sætaröðum 18 - 34. Ekki er hægt að lyfta örmum á Saga class og þeim sætaröðum sem tilheyrðu Economy Comfort sætum. (Hætt var með Economy Comfort 5. apríl 2018).
  .
 • Í öllum vélum Icelandair er lítill hjólastóll sem kemst fyrir á gangi og hægt að nota til að aðstoða farþega við að komast í sæti og til að komast á salerni meðan á flugi stendur.

Hreyfihamlaðir geta ekki setið við neyðarútgang.

(Upplýsingar fengnar í apríl 2016. Uppfært í ágúst 2018).

icelandair


WOW Air

WOW Air þjónustar hjólastólanotendur en nauðsynlegt er að hringja í þjónustuver Wow air með fyrirvara til að tilgreina hvernig þjónustu þörf er á. Síminn hjá þjónustuverinu er 590 3000. Ef þú ferðast með þinn eigin hjólastól innritar þú hann sem farangur. Þú hefur val um að skilja hann eftir við innritunarborð eða skilja hann efitr við landgang flugvélarinnar. Ef þú kýst að skilja hann eftir við innritunarborð þá færir flugvallarstarfsmaður  þér annan stól og fylgir þér í gegnum flugstöðina.
Hvorki þarf að greiða yfirvigt né önnur gjöld fyrir að flytja hjólastólinn. Á vefsíðu WOW Air má finna nánari upplýsingar um atriði er varða hjólastólanotendur (upplýsingar fengnar í apríl 2016 og uppfært í ágúst 2018).

Flugrútur

Reykjavík Excursions BSÍ: Allar flugrúturnar hafa tröppur en hjá Reykjavík Excursions fengust þær upplýsingar að hægt er að fá aðstoð inn í flugrútur og með farangurinn. Þegar bókað er skal láta vita hvers konar aðstoð farþeginn þarf á að halda. Á heimasíðu þeirra kemur fram að farþegar í hjólastól eru beðnir að hafa samband við þá með sólarhrings fyrirvara og þá útvegi þeir viðeigandi farartæki. Taka þarf fram hvort viðkomandi sé í handknúnum hjólastól eða rafmagnsknúnum (upplýsingar fengnar í apríl 2016).

Gray Line Iceland: Rúturnar sem fara í áætlunarferðir eru ekki með lyftu en ef bókað er svokallað "private transfer" þá eru þeir með minni rútur sem eru með lyftu eða ramp og getur einstaklingur í rafknúnum hjólastól nýtt sér þjónustuna. 
Í föstum áætlunarferðum á flugvöllinn aðstoða bílsjórarnir almennt með farangur bæði inn og út úr rútunni og koma samanbrjótanlegum hjólastólum fyrir í farangursrýminu. Hinsvegar geta bílstjórarnir ekki aðstoðað farþega inn og úr rútunni, farþegar þurfa því að geta komið sér sjálfir í hana eða hafa einhvern með sér til að aðstoða þá. Það þarf einnig að vera hægt að brjóta saman hjólastólinn og setja hann í farangursgeymsluna. Hægt er að panta áætlunarferðir með Grey Line Iceland á vefnum, með því að hringja í síma 540 1313 eða með því að mæta 15 mínútum fyrir brottför í umferðarmiðstöð Grey Line Iceland í Holtagörðum (upplýsingar fengnar í apríl 2016).

Touristservice.is: Boðið er upp á ferðir til og frá Keflavíkurflugvelli og er verðið það sama fyrir ferðamenn óháð því hvort þeir eru í hjólastól eður ei. Borgað er verð fyrir bílinn en ekki fyrir hvern og einn farþega. Pláss er fyrir einn hjólastól og tvo aðra farþega í bílnum. Einstaklingar í rafmagnshjólastólum geta nýtt sér þjónustu Touristservice.is. Hjólastólarnir eru keyrðir inn í bílinn um afturhurð. Nauðsynlegt er að hafa samband við Touristservice.is með tveggja sólarhringa fyrirvara. Best er að senda tölvupóst á info(hjá)touristservice.is. Bílstjórar aðstoða með farangur.
Touristservice.is býður einnig upp á dagsferðir og er með leiðsagnarkerfi í bílnum. Leiðsögnina er einnig hægt að fá á ensku (upplýsingar fengnar í apríl 2016).

Thuletravel / Geysir taxi: Boðið er upp á ferðir til og frá Leifsstöð fyrir hreyfihamlaða og aðstoða bílstjórar farþega með farangurinn. Nauðsynlegt er að hafa samband við fyrirtækið með sólarhrings fyrirvara. Mögulegt er að fá einnig aðrar ferðir en að Leifsstöð og er best að hafa samband við Thuletravel/Geysi taxi (upplýsingar fengnar í apríl 2016).


Leifsstöð

Nauðsynlegt er að hafa samband við flugfélagið sem flogið er með 48 klukkustundum fyrir flug ef flugfarþegar þurfa aðstoð á flugvellinum eða í flugvélinni.

Á vef Keflavíkurflugvallar má finna upplýsingar um þjónustu við fatlað fólk.

Flugvöllurinn hefur ekki leyfi til að taka beint á móti þjónustubeiðnum og eru tvær ástæður fyrir því. Annars vegar vegna þess að ef farþegi er með það umfangsmikinn búnað að hann komist ekki fyrir í flugvélinni, þá getur flugfélagið ekki flutt viðkomandi. Hins vegar er það ef farþegi er ófær um að skilja eða framkvæma öryggisþætti um borð í fluvélinni, þá getur flugfélagið óskað eftir því að viðkomandi hafi fylgdarmann með sér. Verði ekki hægt að koma því við getur flugfélagið neitað viðkomandi um flug.


Vegabréf

Við viljum benda á að öryrkjar fá afslátt af gjaldi fyrir vegabréf, endurnýjun vegabréfa og einnig fyrir flýtimeðferð á vegabréfum. Umsækjendur vegabréfa þurfa að mæta í eigin persónu á umsóknarstað. Ekki þarf að taka með passamynd því mynd er tekin á staðnum. Hinsvegar fyrir þá sem vilja fara á ljósmyndastofu, þá getur ljósmyndarinn sent rafræna mynd á kopmyndir@syslumenn.is

Aðalafgreiðsla höfuðborgarsvæðisins fyrir umsóknir um vegabréf er hjá sýslumanninum í Kópavogi á Dalvegi 18. Einnig má sækja um vegabréf hjá öllum sýslumannsembættum utan Reykjavíkur, óháð búsetu.


Notkun íslenskra ökuskírteina utan Íslands

Íslensk ökuskírteini, eins og þau líta út í dag, eru viðurkennd til aksturs innan EES landanna (að teknu tilliti til reglna hvers lands um lágmarksaldur og einnig þarf sérstök réttindi til aksturs í atvinnuskyni). Þetta á við hvort sem viðkomandi dvelur sem ferðamaður í viðkomandi ríki eða tekur upp fasta búsetu í því.

Utan landa Evrópska efnahagssvæðisins eru reglur um viðurkenningu mismunandi. Leiki vafi á hvort íslenskt ökuskírteini er viðurkennt til aksturs þegar viðkomandi dvelur sem ferðamaður í ríkinu er öruggast að hafa auk þess alþjóðlegt ökuskírteini.  Sýslumenn og FÍB gefa út alþjóðlegt ökuskírteini til eins árs. 

Sjá nánari upplýsingar um ökuskírteini.

P - merki

Upplýsingar um notkun P-merkis á ferðalögum erlendis.


Athugið að efni hér fyrir ofan er fengið af vef viðkomandi stofnana/fyrirtækja.Til baka